Neteinelti.is í loftið.

Í dag var viss áfangi hjá mér. Vefsíða sem síðustu vikur hafa farið í að vinna fór í loftið við hátíðlega athöfn í dag 14.4.2014.
Vefurinn Neteinelti.is er hluti af skapandi hópverkefni sem nemendum gafst kostur á að velja sem lokaverkefni til B.Ed gráðu í grunnskólakennarafræðum við Háskóla Íslands.

Skapandi hópverkefni er valkostur fyrir grunnskólakennaranema sem vinna að lokaverkefni til B.Ed. gráðu. Áhersla er á hópvinnu, tengsl við kennarastarfið og kennslufræði, virkni og skapandi starf. Viðfangsefni er ákveðið í sameiningu af nemendum og framsetningarmáti sömuleiðis. Fyrsti hópurinn sem valdi skapandi hópverkefni lauk B.Ed. gráðu 2013. Vef skapandi hópverkefnisins má finna hér.
Vorið 2014 vann 16 nemenda hópur saman undir merkjum skapandi hópverkefnis og ákvað að samskipti meðal barna og unglinga skyldu vera í brennidepli. Nemendurnir skiptust í tvo hópa og tóku fyrir; annars vegar neteinelti meðal ungmenna og hins vegar samskipti meðal barna á yngsta stigi grunnskóla. Um er að ræða vefsíður sem innihalda efni um þessi málefni.
Neteinelti.is
Á þessum vef er stuttmynd um neteinelti og margvíslegt efni fyrir ungmenni, forráðamenn og fagaðila um forvarnir, viðbrögð og afleiðingar neteineltis. Einnig eru á vefnum stutt myndbönd um nafnleynd, dreifingu mynda, ráð til uppalenda og fleira.
Von og Trausti
Á þessum vef er brúðuleikhús í fimm þáttum um Von og Trausta, þ.e. efni fyrir yngstu grunnskólabörnin, kennsluleiðbeiningar og umfjöllun um af hverju brúðuleikhús gagnast vel til að byggja upp góðan bekkjaranda og styrkja jákvæð samskipti.
Sjá vefinn hérna.